Hann er einn þeirra sem syngja lagið Evrópa og við eftir Hauk Viðar Alfreðsson sem var frumflutt á Visir.is í gær. Lagið var sent inn í Eurovision-keppnina á síðustu stundu en ólíklegt er að það hljóti náð fyrir augum dómnefndarinnar, enda var það frumflutt opinberlega áður en það var flutt á RÚV.
Reglur voru settar um að það mætti ekki eftir að laginu Til hamingju Ísland með Silvíu Nótt var lekið á netið löngu áður en keppnin byrjaði.
„Þetta er alltof gott lag til þess að vera að klúðra þessu svona,“ segir Palli, sem hefði verið tilbúinn til að syngja það í undankeppninni. Hann tók síðast þátt í Eurovision árið 1997 með laginu Minn hinsti dans.
„Honum [Hauki Viðari] hefur þá ekki verið meiri alvara en þetta. En ég segi: „Komdu þessu í spilun núna strax, þetta er „hittari“,“ segir hann svekktur.