Hvernig varð Muses til?
„Muses.is er netgallerí með myndlist eftir upprennandi listamenn en ég fékk þá hugmynd að miðla handverki, hönnun og myndlist á rafrænan hátt í framhaldsnámi mínu í Hagnýtri menningarmiðlun árið 2009. Ég opnaði Muses.is ári síðar með sýningu á Ísafirði Westfjord ArtFest og síðan þá höfum við sett upp átta sýningar í hinum ýmsu rýmum eins og gömlu Sanitas-gosverksmiðjunni, Bakkaskemmu þar sem nú er Sjávarklasinn og Norræna húsinu. Síðustu sýningu okkar lauk í september, í Safnahúsinu á Ísafirði. Okkar markmið er að færa myndlist nær almenningi og þess vegna höfum við oftast valið óhefðbundin rými til þess að setja upp sýningar og heimasíðan er mjög aðgengileg fyrir alla.

Hver eru framtíðarverkefni Muses.is?
Við erum í sambandi við aðila í Tékklandi um að byggja upp samskonar síðu þar í landi en við sjáum fyrir okkur að hægt og rólega verði byggð brú á milli landa með netgalleríi. Þá verður fjórða Westfjord ArtFest sýningin haldin um næstu páska á Ísafirði og einnig er Evróputúr í vinnslu, þar sem við keyrum um nokkrar valdar borgir í Evrópu á stórum bíl með blöndu af málverkum, vídeóverkum og götulist. Við leitum að samstarfsaðila í þessa sýningu en þetta gæti verið tækifæri fyrir íslenskt stórfyrirtæki til þess að kynna sig á óhefðbundinn hátt,” segir Rakel og er bjartsýn á framhaldið.
„Við erum metnaðarfullur vettvangur á netinu hvort sem litið er á Muses eða Kaupstað en við værum ekkert án þeirra hæfileikaríku listamanna og hönnuða sem gefa síðunum líf. Svo lengi sem þessi mikla gróska á sér stað í íslenskri myndlist þá er okkar framtíð björt og við hlökkum svo sannarlega til næstu verkefna.”