Körfubolti

Fyrsta tap ársins hjá Hlyni og Jakobi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson. Vísir/Valli
Fimm leikja sigurganga Drekanna frá Sundsvall endaði í Jämtland í kvöld þegar Íslendingaliðið Sundsvall Dragons tapaði 63-71 á móti heimamönnum í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Jakob Örn Sigurðarson var með 19 stig og Hlynur Bæringsson bætti við 11 stigum og 9 fráköstum. Stigahæsti leikmaður Sundsvall-liðsins var hinsvegar Mikael Lindquist með 20 stig. Ægir Þór Steinarsson er ekki enn kominn af stað eftir meiðsli sín.

Sundsvall Dragons var búið að vinna fimm fyrstu deildarleiki sína á árinu og það leit út fyrir að það yrði framhald á sigurgöngunni þegar Drekarnir komust í 22-10 eftir fyrsta leikhlutann. Jämtland Basket vann hinsvegar þrjá síðustu leikhlutana og tryggði sér átta stiga sigur.

Hlynur og Jakob settu niður tvær þriggja stiga körfur hvor og voru að hitta ágætlega en þetta var ekki dagur Drekanna og þeir eiga á hættu að missa aftur þriðja sætið sem góð spilamennska í janúarmánuði hafði skilað þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×