Handbolti

Arnór hafði betur á móti Ásgeiri og Róberti eftir vítakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Vísir/AFP
Arnór Atlason getur orðið franskur bikarmeistari á morgun eftir ævintýralegan sigur Saint Raphael á stjörnuprýddu liði Paris St. Germain í undanúrslitum frönsku bikarkeppninnar í dag. Þetta var mikið uppgjör hjá íslenskum landsliðsmönnum því Róbert Gunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru í tapliðinu.

Saint Raphael, er fjórum sætum neðar í töflunni, en sló PSG út í vítakeppni eftir að leikurinn endaði með 34-34 jafntefli. Arnór skoraði eitt mark úr tveimur skotum í leiknum auk þess að gefa eina stoðsendingu.

Róbert Gunnarsson nýtti bæði skotin sín og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði eitt mark úr fjórum skotum. Róbert skoraði í vítakeppninni alveg eins og Arnór.

Danska stórskyttan Mikkel Hansen skoraði 13 mörk úr 18 skotum fyrir PSG í leiknum en það dugði ekki til. Landi hans Morten Olsen svaraði með 13 mörk úr 17 skotum og það var dýrmætt fyrir Saint Raphael liðið.

Slavisa Djukanovic tryggði Saint Raphael sæti í bikarúrslitaleiknum með því að verja lokavítið frá Samuel Honrubia.  

Saint Raphael mætir Montpellier í bikarúrslitaleiknum á morgun en Montpellier vann 26-24 sigur á Dunkerque í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×