Svo fór að Bayern vann 2-0 sigur með mörkum þeirra Toni Kroos og Thomas Müller. Bæði komu eftir að Arsenal missti markvörðinn Wojciech Szczesny af velli með rautt spjald.
Heimamenn í Arsenal fengu þó draumabyrjun þegar að Jerome Boateng braut á Mesut Özil innan teigs og vítaspyrna dæmd. Özil tók sjálfur spyrnuna en Manuel Neuer, markvörður Bayern, varði slaka vítaspyrnu hans auðveldlega.
Þeir þýsku fengu svo sjálfir vítaspyrnu þegar Szczesny braut á Hollendingnum Arjen Robben eftir að hann fékk lúmska sendingu frá Kroos. Víti var umsvifalaust dæmt og Pólverjinn rekinn af velli.
David Alaba klúðraði reyndar vítinu með því að skjóta í stöng en undirmannað lið Arsenal átti mjög erfitt uppdráttar í síðari hálfleik. Kroos kom Bayern yfir með frábæru marki í upphafi hálfleiksins og Müller innsiglaði svo sigurinn með skalla skömmu fyrir leikslok.
Kroos átti svo skot í stöng í uppbótartíma en þriðja markið hefði líklega endanlega gert út um vonir Arsenal um sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar.
Helstu atvik leiksins má sjá hér fyrir neðan.