Handbolti

Frakki ver mark Barcelona í fjarveru Sterpik

Mickaël Robin heilsar þjálfaranum Xavi Pascual.
Mickaël Robin heilsar þjálfaranum Xavi Pascual. Mynd/Barcelona
Handknattleikslið Barcelona gekk í dag frá samningi við franska markvörðinn Mickaël Robin út tímabilið en hann kemur til félagsins frá Montpellier í Frakklandi.

Barcelona varð fyrir miklu áfalli í öruggum Meistaradeildarsigri gegn París Handball um síðustu helgi þegar Arpad Sterbik, markvörður liðsins, meiddist illa en hann verður frá í þrjá mánuði.

Sterbik er einn albesti markvörður heims og algjör lykilmaður í liði Barcelona. Spænska liðið þurfti því að finna alvöru mann í hans stað ætlaði það sér alla leið í Meistaradeildinni.

Mickaël Robin er 28 ára gamall og vann frönsku deildina með Montpellier 2011 og 2012. Þá vann hann franska bikarinn með liðinu 2012 og aftur í fyrra. Hann hefur þó minna fengið að spila eftir að Thierry Omeyer sneri heim frá Kiel og samdi við Montpellier.

Frakkinn er mættur til Barcelona og verður kynntur fyrir blaðamönnum eftir leik liðsins gegn BM Guadalajara í kvöld. Hann er nú þegar búinn að hitta þjálfara liðsins, Xavi Pascual.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×