Ragnar Sigurðsson verður heiðursgestur á leik FC Kaupmannahafnar og Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni um helgina.
Ragnar var á dögunum seldur til rússneska liðsins Krasnodar og þar sem danska deildin var í vetrarfríi fengu stuðningsmenn liðsins ekki tækifæri til að kveðja hann formlega.
Það verður því gert fyrir leikinn á sunnudag en þetta er fyrsti heimaleikur FCK á árinu.
Fyrsti leikur Ragnars með Krasnodar verður gegn FC Ural í næsta mánuði en með síðarnefnda liðinu leikur Sölvi Geir Ottesen, fyrrum liðsfélagi Ragnars hjá FCK.

