Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, hefur verið kærður af Knattspyrnusambandi Evrópu fyrir ummæli sem hann lét falla eftir leik liðsins gegn Barcelona í vikunni.
Pellegrini var ekki ánægður með frammistöðu sænska dómarans Jonas Eriksson í leiknum en City missti mann af velli með rautt spjald þegar staðan var markalaus. Barcelona vann svo leikinn, 2-0.
Pellegrini sagði í viðtölum við fjölmiðla eftir leik að Eriksson hefði ekki verið hlutlaus í leiknum og að hann hefði verið að bæta upp fyrir mistök sem hann gerði í leik sem hann dæmdi hjá Barcelona í fyrra.
Hann efaðist einnig um að það hefði verið skynsamlegt að setja sænskan dómara á svo mikilvægan leik.
