Handbolti

Hedin hættur með norska handboltalandsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Hedin í einum leik norska liðsins á EM í Danmörku.
Robert Hedin í einum leik norska liðsins á EM í Danmörku. Vísir/AFP
Svíinn Robert Hedin er hættur með norska handboltalandsliðið en hann hefur verið þjálfari liðsins undanfarin fimm og hálft ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu norska handboltalandsliðsins.

Síðasta mót norska landsliðsins undir stjórn Robert Hedin var EM í Danmörku þar sem norska landsliðið endaði aðeins í 14. sæti. Liðið tapaði fyrsta leiknum á móti Íslandi og komst á endanum ekki upp úr riðlinum.

Hedin vill með þessu skapa frið í kringum liðið í aðdraganda undankeppni HM í Katar en hann mátti þola mikla gagnrýni fyrir frammistöðu liðsins á EM enda bjuggust margir við að norska liðið færi mun lengra.

Robert Hedin tók við norska landsliðinu í október 2008 og undir hans stjórn fór liðið á fimm stórmót. Bestum árangri náði liðið á EM 2010 þegar liðið endaði í 7. sæti.

Erik Langerud, framkvæmdastjóri norska handboltasambandsins, segir að sambandið ætli að ráða þjálfara tímabundið fyrir umspilsleikina á móti Austurríki í júní en síðan verði gengið frá framtíðarþjálfara liðsins í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×