Handbolti

Schmid magnaður í sigri Ljónanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Schmid var öflugur í dag og skoraði þrettán mörk.
Andy Schmid var öflugur í dag og skoraði þrettán mörk. Vísir/Getty
Rhein-Neckar Löwen er nú aðeins einu stigi á eftir toppliði Kiel í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Löwen hafði betur gegn Füchse Berlin í spennandi leik í dag, 31-27, þar sem leikstjórnandinn Andy Schmid fór á kostum og skoraði þrettán mörk.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk gegn sínum gömlu félögum í Füchse Berlin og Stefán Rafn Sigurmansson eitt fyrir Löwen.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari ljónanna og Dagur Sigurðsson stýrir sem kunnugt er liði refanna í Berlín.

Füchse Berlin byrjaði þó betur en staðan í hálfleik var 17-16, gestunum frá þýsku höfuðborginni í vil. Það var svo jafnt á flestum tölum þar til að heimamenn náðu að síga fram úr á síðustu tíu mínútum leiksins.

Niklas Landin, markvörður Löwen, var öflugur í síðari hálfleik og mikilvægur á lokasprettinum.

Markahæstur hjá Füchse Berlin var línumaðurinn Jesper Nielsen sem skoraði átta mörk.

Löwen er nú með 41 stig, einu á eftir toppliði Kiel sem á leik til góða. Füchse Berlin er svo í fimmta sætinu með 34 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×