Handbolti

Öxlin í fínu lagi á Alexander sem er byrjaður í jóga

Alexander Petersson.
Alexander Petersson. vísir/bongarts
Alexander Petersson mætir sínu gamla félagi, Füchse Berlin, í þýska handboltanum á morgun. Hann er klár í slaginn og líður vel eftir EM-fríið.

"Fríið var mjög gott fyrir mig. Bæði andlega og líkamlega. Við fórum í frí til Íslands og heimsóttum einnig vini í Danmörku og Þýskalandi. Ég æfði svo líka eins vel og ég gat," sagði Alexander.

Skyttan magnaða hefur einnig verið að stunda jóga og vinna í andlegu hliðinni.

"Jóga hefur hjálpað mér mikið. Sérstaklega með allan liðleika. Ég er líka að vinna mikið með andlegu hliðina. Ég hef verið að vinna á Íslandi með manni sem hjálpar mér með andlegu hliðina."

Öxlin hefur plagað Alexander lengi og hún er ástæðan fyrir því að hann hefur misst af síðustu tveim stórmótum með landsliðinu. Alexander er allur að koma til í henni.

"Mér líður mjög vel og öxlin er í fínu lagi. Ekkert vandamál með hana. Það þarf samt að vinna mikið með hana og ég má ekki taka neitt frá þar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×