Handbolti

Enn einn sigur Arons með Kolding

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Aron Kristjánsson stýrði KIF Kolding til sigurs í ellefta leik sínum í röð í Danmörku í kvöld. En það stóð tæpt að þessu sinni.

Kolding vann SönderjyskE, 26-25, eftir að hafa lent 5-1 undir strax í upphafi leiksins. Kolding kom þó til baka og leiddi í hálfleik, 14-13.

Lærisveinar Arons voru með yfirhöndina lengst af í seinni hálfleiknum en SönderjyskE jafnaði metin þegar átta mínútur voru eftir. En Kolding reyndist svo sterkara á lokasprettinum.

Kolding er í góðri stöðu að loknum tveimur umferðum í úrslitakeppninni og með sex stig á toppi síns riðils. SönderjyskE og Bjerringbro/Silkeborg koma næst með tvö stig hvort.

Aron tók við þjálfun Kolding eftir að Evrópumeistarmótinu lauk í janúar en síðan þá hefur Kolding unnið alla ellefu leiki sína í öllum keppnum og tryggt sér danska bikarmeistaratitilinn.

Í hinum leik kvöldsins vann GOG, lið Snorra Steins Guðjónssonar, öruggan sigur á Skjern, 30-22. Snorri Steinn spilaði ekki með vegna meiðsla en liðin eru jöfn á toppi hins riðilsins með fjögur stig hvort.




Tengdar fréttir

Aron bikarmeistari í Danmörku

KIF Kolding, lið Arons Kristjánssonar, varð í dag danskur bikarmeistari í handbolta eftir sigur á Bjerringbro/Silkeborg í úrslitaleik.

Tíu sigurleikir í röð hjá Aroni Kristjáns

Kif Kolding hélt í kvöld áfram sigurgöngu sinni undir stjórn íslenska landsliðsþjálfarans Arons Kristjánssonar þegar liðið vann fjögurra marka sigur á Bjerringbro-Silkeborg í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×