Handbolti

Níundi sigur Guif í röð | Deildarmeistaratitillinn í sjónmáli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Rafn og félagar eru á mikilli siglingu í Svíþjóð.
Aron Rafn og félagar eru á mikilli siglingu í Svíþjóð. Víisr/AFP
Guif vann í kvöld stórsigur á H43 Lund á útivelli, 40-28, í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Aron Rafn Eðvarðsson landsliðsmarkvörður leikur með Guif, sem og línumaðurinn Heimir Óli Heimisson sem skoraði þrjú marka liðsins í kvöld.

Kristján Andrésson, fyrrum landsliðsmaður, er þjálfari liðsins en Guif er í efsta sæti deildarinnar með 47 stig eftir 31 leik. Guif tryggir sér deildarmeistaratitilinn með sigri á Drott í lokaumfeðrinni þann 8. apríl.

Guif komst í toppsæti deildarinnar með sigri á Kristianstad í upphafi mánaðarins og hefur nú unnið alls níu deildarleiki í röð. Síðan að deildin hófst á ný eftir EM-fríið hefur Guif unnið ellefu leiki og gert eitt jafntefli í tólf leikjum.

Alingsås er í öðru sæti deildarinnar með 44 stig eftir 30 leiki og Kristianstad, lið Ólafs Guðmundssonar, er með 43 stig eftir 29 leiki. Bæði eiga því enn möguleika á að ná Guif að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×