Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en það var Einar Andri, þjálfari FH, sem fékk Kristján til að koma aftur. Kristján gerði liðið að Íslandsmeisturum 2011 og fór með það aftur í úrslit árið 2012, í bæði skiptin með Einar Andra sem aðstoðarmann sinn.
Kristján, sem gerði FH einnig að Íslandsmeisturum sem spilandi þjálfari árið 1992, hætti eftir tímabilið 2012 og tók Einar Andri þá við starfinu.
„Einar Andri kom að máli við mig og bar þessa hugmynd upp við mig og ég ákvað að slá til. Mér rann blóðið til skyldunnar enda hefur FH skipað stóran sess í mínu lífi og fjölskyldunni og vonandi get ég lagt mitt af mörkum til þess að FH komist í úrslitakeppnina. Þetta er ögrandi verkefni,“ segir Kristján við Morgunblaðið.
FH, sem hefur verið fastagestur í úrslitakeppninni undanfarin fjögur tímabil, er jafnlangt frá fallbaráttunni og sæti í úrslitakeppninni þegar fjórar umferðir eru eftir.
Hafnafjarðarliðið er með 15 stig í sjötta sæti deildarinnar, þremur stigum frá Fram sem er í fjórða sætinu og þremur stigum á undan Akureyringum sem eru í sjöunda sæti, umspilssæti um áframhaldandi veru í Olís-deildinni.
FH-ingar hafa tapað sjö af síðustu átta leikjum sínum í deildinni.
