Handbolti

Kiel með tveggja stiga forskot eftir jafntefli

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. vísir/bongarts
Þýskalandsmeistarar Kiel misstigu sig á heimavelli í dag er liðið gerði jafntefli, 27-27, gegn Magdeburg.

Leikurinn var alveg hreint ótrúlega spennandi. Það gekk ekkert upp hjá Kiel framan af leik og liðið var sex mörkum undir úm tíma.

Eins og venjulega kom liðið upp síðasta stundarfjórðunginn. Þá komst Kiel yfir og liðið hefði getað tryggt sér sigur í lokasókn sinni mínútu fyrir leikslok. Skot Marko Vujin gekk ekki og Magdeburg komst í sókn.

Leikmenn Magdeburgar kræktu í vítakast sex sekúndum fyrir leikslok. Austurríkismaðurinn Robert Weber steig upp og skoraði af öryggi úr vítinu.

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel í dag og Guðjón Valur Sigurðsson tvö. Kiel er með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×