Handbolti

Refirnar hans Dags enduðu taphrinuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Vísir/Getty
Füchse Berlin, liðs Dags Sigurðssonar, komst aftur á sigurbraut í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þegar liðið vann fimm marka heimasigur á Hannover-Burgdorf. Björgvin Páll varði vel en það dugði ekki Bergischer HC sem tapaði stórt.

Füchse-liðið vann leikinn á móti Hannover-Burgdorf 26-21 eftir að hafa verið 14-9 yfir í hálfleik. Füchse var búið að tapa þremur síðustu deildarleikjum sínum á móti Minden, Flensburg og  Rhein-Neckar Löwen.

Rúnar Kárason skoraði tvö mörk fyrir Hannover-Burgdorf en liðið tapaði þarna fjórða deildarleiknum í röð. Iker Romero var markahæstur hjá Refunum með 6 mörk og Silvio Heinevetter varði líka vel í markinu.

Björgvin Páll Gústavsson varði sextán skot í marki Bergischer HC og Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk þegar liðið tapaði með ellefu marka mun á útivelli á móti SC Magdeburg, 20-31.

Maximilian Hermann var markahæstur hjá Bergischer með sex mörk en Stefan Kneer skoraði mest fyrir Magdeburg eða átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×