Enska knattspyrnusambandið tilkynnti það í dag að sambandið ætli að minnast fórnarlamba Hillsborough-harmleiksins sem sérstökum hætti helgina 11. til 14. apríl næstkomandi.
Allir leikirnir í enska bikarnum, úrvalsdeildinni sem og öðrum deildum enska boltans munu þá hefjast sjö mínútum seinna en áður hafði verið gefið út. Þetta er táknræn seinkun með beinni tilvitnun í það sem gerðist fyrir 25 árum.
96 manns krömdust til bana á Hillsborough-leikvanginum í Sheffield 15. apríl 1989 þegar Liverpool og Nottingham Forest léku þar undanúrslitaleik í ensku bikarkeppninni. Leikurinn var flautaður af eftir sex mínútur eða klukkan 15.06 að breskum tíma.
Undanúrslitaleikir ensku bikarkeppninnar fara fram á Wembley þessa helgi. Leikur Wigan Athletic og Arsenal laugardaginn 12. apríl hefst nú 17.07 í stað 17.00 og daginn eftir byrjar leikur Hull City og Sheffield United klukkan 16.07 en ekki klukkan 16.00.