„Auðvitað skulduðum við Moyes og okkur sjálfum að ná góðum úrslitum. Stuðningsmennirnir, stjórinn og allir hjá Manchester United áttu skilið að fá þennan sigur. Þetta eru frábær úrslit og vonandi upphafið að einhverju sérstöku," sagði Wayne Rooney við Sky Sports en United-liðið þarf að vinna Meistaradeildina til að vera með í keppninni á næsta tímabili.
„Löngunin í sigur skilaði þessu. Stuðningur okkar fólks hefur verið frábær og stuðningsmennirnir voru líka frábærir á móti Liverpool. Við gleðjumst með þeim," sagði Rooney sem lagði upp annað mark Robin van Persie í leiknum.
„Þessi sigur getur verið byrjunin á tímabilinu fyrir okkur," sagði Rooney. Wayne Rooney lagði þarna upp sitt sjöunda mark í Meistaradeildinni á leiktíðinni en hann hefur ekki skorað síðan að hann gerði tvö á móti Bayer 04 Leverkusen í fyrsta leik.

