Golf

Gott skor á fyrsta hring í Texas

Mickelson virðist vera að rétta úr kútnum rétt fyrir Masters.
Mickelson virðist vera að rétta úr kútnum rétt fyrir Masters. Vísir/Getty
Það er óhætt að segja að bestu kylfingar heims hafi leikið sér að Houston vellinum í Texas en fyrsti hringur af Shell Houston Open kláraðist í gærnótt.

Alls eru 96 kylfingar undir pari eftir fyrsta hring en Bandaríkjamennirnir Charely Hoffman og Bill Haas leiða mótið á sjö höggum undir pari. Það eru svo fimm kylfingar jafnir í þriðja sæti á sex undir, meðal þeirra er fyrrum PGA-meistarinn Keegan Bradley sem og Matt Kuchar.

Mörg stór nöfn eru í toppbaráttunni á fjórum og fimm höggum undir pari en þar má helst nefna Sergio Garcia sem kom inn á fimm höggum undir í gær sem og Suður-Afríkumaðurinn og fyrrum Masters sigurvegarinn Charles Schwartzel.

Phil Mickelson átti einnig góðan hring á fyrsta degi eftir að hafa dregið sig úr leik á Valero meistaramótinu um síðustu helgi vegna meiðsla. Er hann á fjórum höggum undir pari. Rory McIlroy er einnig með í Texas en hann kom inn á tveimur höggum undir pari.

Annar hringur Shell Houston Open fer fram í dag og verður sýnt frá honum í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 19:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×