Körfubolti

Uppsala sendi Drekana í sumarfrí

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hlynur var öflugur að vanda en Drekarnir eru úr leik.
Hlynur var öflugur að vanda en Drekarnir eru úr leik. Vísir/Valli
Íslendingaliðið Sundsvall Dragons er komið í sumarfrí í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta eftir 19 stiga tap gegn Uppsala Basket, 90-71, í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum deildarinnar.

Sundsvall endaði í fjórða sæti deildarinnar með 44 stig en Uppsala hafnaði í fimmta sæti með tveimur stigum minna. Munurinn á liðunum var ekki mikill í deildinni en Uppsala-menn voru sterkari í þessu einvígi.

Uppsala var 2-1 yfir í einvíginu fyrir leikinn í kvöld og gat með sigri tryggt sér sæti í undanúrslitum og það gerðu heimamenn. Þeir voru með örugga forystu nær allan leikinn en staðan í hálfleik var 54-40 og fyrir síðasta leikhlutann munaði tíu stigum á liðunum 66-56.

Uppsala-menn hleyptu Drekunum aldrei nálægt sér í lokafjórðungnum þrátt fyrir mikla baráttu gestanna. Á endanum sigldu þeir enn lengra fram úr og tryggðu sér farseðilinn í undanúrslitin.

Hlynur Bæringsson var stigahæstur Íslendinganna hjá Sundsvall í leiknum með 15 stig auk þess sem hann tók 8 fráköst. Hann setti niður tvo fallega þrista í leiknum en það dugði ekki til að þessu sinni.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 11 stig, gaf 3 stoðsendingar og tók 2 fráköst og Ægir Þór Steinarsson skoraði 3 stig og gaf 2 stoðsendingar á þeim 12 mínútum sem hann spilaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×