Framleiðsla á alíslenskum fjallabíl er að hefjast hér á landi og standa vonir til að fyrsti bílinn komi á göturnar í lok árs. Bíllinn er hannaður af Íslendingum og verður settur saman á Íslandi.
Ari Arnórsson er stofnandi Ísar sem á morgun mun ganga frá sölu á þremur alíslenskum Ísar TorVeg fjallabílum til ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Segja má að blað verði brotið í íslenskri bílasögu en ekki hefur áður verið hannaður og raðsmíðaður íslenskur bíll hér á landi.
Ari hefur lengi gengið með þá hugmynd í kollinum að hanna fjallabíl sem mæti sérstaklega þörfum ferðaþjónustu- og björgunafólks.
Á götu og jöklum
„Þetta eru stórjeppar sem eru í mikilli breidd og eru þess vegna minni um sig. Það geta fimm farþegar setið þversum. Markmiðin eru einföld: Þetta eiga að vera færustu, hæfustu götuskráðir jeppar sem geta verið á götu og farið yfir jökkla,“ segir Ari.
Ekki sé verið að finna upp hjólið. Íhlutir bílsins verði erlendir en öll hönnun sé íslensk og bíllinn settur saman á Íslandi. Hann hefur fengið til liðs við sig íslenska sérfræðinga en markmiðið er að bíllinn hafi endingu á við farþegaþotur. Áhuginn hefur ekki látið á sér standa.
„Áhugi þeirra sem ætla og þurfa að nota þessi tæki er einlægur. Nú hafa allmargir notendur þessara tækja keypt hlutafé í þessu litla fyrirtæki til þess að ýta því á flot,“ segir Ari.
ÍsarTorVeg fjallabíllinn verður framleiddur í nokkrum útgáfum, 7-18 manna. Stefnt er að því að bíllinn verði mun hagkvæmari fyrir ferðaþjónustufyrirtæki en þeir bílar sem nú eru á markaði. Hvað mun hinn íslenski fjallabíll kosta?
„Vonandi verður það sambærilegt og að kaupa nýjan Range Rover. Það er ekki raunhæft að smíða svona tæki og selja undir 20 milljónum króna.“

