Gareth Bale lagði upp mark fyrir CristianoRonaldo er Real Madrid tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með 4-0 sigri á Bayern München í kvöld.
„Þetta eru frábær úrslit fyrir okkur. Við höfum lagt svo hart að okkur, vorum með rétta taktík, spiluðum vel og verðskulduðum sigurinn,“ sagði Gareth Bale, Walesverjinn í liði Real eftir leikinn.
Markið sem Bale lagði upp fyrir Ronaldo kom eftir skyndisókn en þær óttuðust Bæjarar fyrir leikinn, sérstaklega eftir fyrri leikinn.
„Þeir skildu alltaf eftir pláss í skyndisóknunum sem er gott fyrir okkur því við erum með snögga leikmenn sem geta nytt sér það,“ sagði Bale en Real er nú komið í úrslit í fyrsta skipti í tólf ár.
„Við erum svo ánægðir með að komast í úrslitaleikinn en það er einn leikur eftir. Þetta er ástæðan fyrir því að ég vildi ganga í raðir stærsta félags í heimi. Ég vil vinna titla í stórum leikjum.“
„Við höfum samt ekkert unnið ennþá. Úrslitaleikurinn verður erfiður, sama hvaða liði við mætum. En mig hlakkar rosalega til,“ sagði Gareth Bale.
