Handbolti

Ljónin hans Guðmundar óstöðvandi - unnu Barcelona í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Vísir/Getty
Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen eru á miklu skriði þessa dagana og fylgdu eftir sigri á Kiel í vikunni með því að vinna sjö marka sigur á Barcelona, 38-31, í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Þetta var fyrri leikur og Barcelona en sá seinni fer fram í Barcelona um næstu helgi en sigurvegarinn tryggir sér sæti á fjögurra liða úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.

Uwe Gensheimer átti stórleik í vinstra horninu hjá Rhein-Neckar Löwen og skoraði fjórtán mörk í leiknum. Niklas Landin var líka mjög öflugur í markinu.  Alexander Petersson skoraði þrjú mörk en Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Kiel er líka í góðum málum í Meistaradeildinni eftir 31-21 útisigur á makedónska liðinu Metalurg Skopje í gær. Aron Pálmarsson skoraði sjö mörk í leiknum.

Þriðja Íslendingaliðið, Paris Saint-Germain, á hinsvegar erfitt verkefni fyrir höndum í seinni leiknum í Ungverjalandi eftir 26-28 tap á heimavelli á móti MKB Veszprém.

Sigurinn á Kiel í deildinni í vikunni kom Rhein-Neckar Löwen á toppinn í þýsku deildinni og það er nokkuð ljóst að Guðmundur Guðmundsson er að koma með sitt lið upp á hárréttum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×