Handbolti

Guðjón Valur með átta mörk - Löwen vann er áfram efst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Getty
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur hjá Kiel í kvöld ásamt Filip Jicha þegar liðið vann 17 marka stórsigur á Hannover-Burgdorf, 37-20, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Rhein-Neckar Löwen er samt áfram í toppsæti deildarinnar eftir 34-26 sigur í Íslendingaslag.

Guðjón Valur skoraði átta mörk fyrir Kiel í sigrinum á Hannover-Burgdorf eins og Jicha en Aron Pálmarsson var með þrjú mörk í þessum örugga heimasigri. Marko Vujin og Patrick Wiencek skoruðu báðir sex mörk fyrir lið Alfreðs Gíslasonar.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í 34-26 útisigri á Bergischer HC. Stefan Rafn Sigurmannsson var með tvö mörk en markahæstur hjá Löwen-liðinu var Andy Schmid með níu mörk.

Björgvin Páll Gustavsson fékk bara eitt varið skot skráð og Arnór Gunnarsson komst ekki á blað hjá liði Bergischer HC.

Rhein-Neckar Löwen og Kiel eru bæði með 51 stig og lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar halda því áfram efsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×