Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, vann í kvöld sinn fyrsta deildarsigur með liði sínu Sandnes Ulf. Sandnes Ulf vann þá 2-1 heimasigur á Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Sandnes Ulf var aðeins búið að ná í tvö stig út úr fyrstu fimm leikjum sínum en komst upp úr fallsæti með þessum flotta sigri. Hannes kom til liðsins frá KR þar sem hann varð Íslandsmeistari í annað skiptið á þremur árum síðasta haust.
Diego Rubio skoraði sigurmark Sandnes Ulf á 76. mínútu en Fredrik Midtsjø hafði komið Sandnes Ulf í 1-0 á 9. mínútu leiksins. Franck Boli jafnaði fyrir Stabæk á 62. mínútu.
Birkir Már Sævarsson og félagar í Brann töpuðu á sama tíma 1-3 á heimavelli á móti Haugesund. Brann komst í 1-0 á 27. mínútu leiksins en fékk síðan á sig þrjú mörk frá 40. til 50. mínútu. Christian Gytkjær skoraði öll þessi mörk en það fyrsta kom úr vítaspyrnu.
Fyrsti sigurinn hjá Hannesi í atvinnumennsku
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
