Handbolti

Guif og Kristianstad töpuðu bæði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson. Vísir/Daníel
Íslendingaliðin tvö í undanúrslitum úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildar karla í handbolta, Guif og Kristianstad, urðu bæði að sætta sig við tap í leikjunum sínum í kvöld.

Kristianstad tapaði með þremur mörkum á útivelli á móti Lugi HF, 26-29, en Guif steinlá með níu mörkum á útivelli á móti Alingsås, 18-27.

Ólafur Guðmundsson skoraði sex mörk úr ellefu skotum (55 prósent) fyrir Kristianstad auk þess að gefa þrjár stoðsendingar en hann var markahæsti leikmaður síns liðs.

Kristianstad vann fyrsta leikinn 30-23 á heimavelli og staðan í einvíginu er því 1-1.

Það er flóknari staða í hinu einvíginu þar sem að fyrsti leikur undanúrslitaeinvígis Guif og Alingsås var dæmdur ógildur en hann vann Guif eftir tvær framlengingar.

Leikurinn í kvöld var því í raun leikur eitt í einvíginu þótt að Guif sé með heimavallarrrétt í einvíginu. Alingsås kærði fyrsta leikinn þar sem að Guif tryggði sér framlengingu þar sem að klukkan fór ekki í gang á réttum tíma.

Alingsås vann öruggan sigur á Kristjáni Andréssyni og lærisveinum hans í Guif í kvöld. Aron Rafn Eðvarðsson var þó einn besti maður Guif-liðsins en hann varði 12 af 32 skotum sem komu á hann þar á meðal eitt vítakast. Heimir Óli Heimisson skoraði eitt mark fyrir Guif.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×