Golf

J.B. Holmes sigraði á Wells Fargo meistaramótinu

J.B. Holmes fagnar með kylfusveini sínum í kvöld.
J.B. Holmes fagnar með kylfusveini sínum í kvöld. AP/Getty
Hinn högglangi J.B. Holmes sigraði á Wells Fargo meistaramótinu sem kláraðist nú í kvöld en þessi 32 ára Bandaríkjamaður lék hringina fjóra á Quail Hollow vellinum í Norður-Karólínu á 274 höggum eða 14 höggum undir pari. Jim Furyk náði öðru sætinu með frábærum lokahring upp á 65 högg en hann endaði mótið á 13 höggum undir pari. Martin Flores endaði í þriðja sætinu á 12 höggum undir.

Phil Mickelson átti ekki góðu gengi að fagna á lokahringnum en hann kom inn á 76 höggum, fjórum yfir pari og endaði mótið á sjö höggum undir pari, einu höggi á eftir Rory McIlroy sem lék hringina fjóra á átta höggum undir pari.

Það eru sex ár síðan að J.B. Holmes sigraði síðast á móti á PGA-mótaröðinni en síðan þá hefur hann farið í tvær skurðaðgerðir á heila, brotið á sér löppina og skilið við eiginkonu sína. Með sigrinum tryggði hann sér þátttökurétt á Players meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn en það er eitt stærsta mót ársins á PGA-mótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×