Fanndís Friðriksdóttir skoraði eitt marka Arna-Björnar í dag í 4-1 heimasigri á Amazon Grimstad i 3. umferð norsku kvennadeildarinnar í fótbolta.
Arna-Björnar gerði nánast út um leikinn með því að skora þrjú mörk á fyrstu sautján mínútunum en Fanndís kom liðinu í 2-0 á 15. mínútu.
Fanndís gekk til liðs við Arna-Björnar fyrir tímabilið og var þarna að skora sitt fyrsta deildarmark en hún skoraði 7 mörk í 23 leikjum með Kolbotn í fyrrasumar.
Arna-Björnar komst í 4-0 eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik en Amazon Grimstad minnkaði muninn undir lok leiksins.
Fanndís spilaði allar 90 mínúturnar fyrir sitt lið og næst á dagskrá hjá henni er landsleikur á móti Sviss í næstu viku.
