Handbolti

Róbert skoraði tvö í útsigri PSG

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Róbert Gunnarsson nýtti bæði færin sín.
Róbert Gunnarsson nýtti bæði færin sín. Vísir/Getty
Róbert Gunnarsson, landsliðsmaður í handbolta, skoraði tvö mörk úr tveimur skotum fyrir Paris Saint-Germain sem vann Trembley, 33-29, á útivelli í frönsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.

Sigur PSG var aldrei í hættu en liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16-12, og náði mest sex marka forskoti í seinni hálfleik, 31-25.

Ásgeir Örn Hallgrímsson komst ekki á blað en hann stóð vaktina í vörninni og fékk gult spjald og tveggja mínútna brottrekstur.

PSG komst upp að lið Montpellier í öðru sæti deildarinnar með sigrinum en bæði lið eru með 38 stig eftir 25 leiki. Dunkerque er sem fyrr á toppnum með 41 stig og á leik til góða.

Gunnar Steinn Jónsson og félagar í Nantes eru svo í fjórða sæti deildarinnar með 35 stig eftir 25 leiki.

Nantes vann Sélestat, 32-23, á útivelli í kvöld. Gunnar Steinn var á skýrslu en kom ekkert við sögu. Hann er á leið til Gummersbach í Þýskalandi eftir tímabilið.

Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, gengur í raðir Sélestat eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×