Handbolti

Hamburg er á leið á hausinn

Rudolph á bekknum hjá Hamburg. Hann er nú horfinn á braut og eftir situr Hamburg í skítnum.
Rudolph á bekknum hjá Hamburg. Hann er nú horfinn á braut og eftir situr Hamburg í skítnum. vísir/getty
Handboltaveldið Hamburg er hrunið og svo gæti farið að Meistarardeildarmeistararnir séu á leið í gjaldþrot og úr þýsku úrvalsdeildinni.

Ástæðan fyrir þessu er einföld. Hinn moldríki Andreas Rudolph er hættur sem forseti félagsins og er hættur að pumpa peningum í félagið.

Veldi Hamburg hefur verið byggt á hans peningum og án hans aðstoðar er rekstrargrundvöllur Hamburg horfinn. Rudolph hefur á undanförnum árum mokað peningum í félagið og gert risasamning við marga leikmenn. Samninga sem félagið stendur ekki undir án aðstoðar Rudolph.

Brotthvarf Rudolph hefur strax haft áhrif á reksturinn enda hafa leikmenn liðsins ekki enn fengið greidd laun fyrir apríl-mánuð. Þess utan er ekki búið að greiða fyrir leigu á heimavelli félagsins og annað.

Hamburg þarf allt frá 230 milljónum króna upp í 400 milljónir til þess að geta klárað tímabilið.

Á morgun verða gefin út keppnisleyfi fyrir næstu leiktíð og tryggi Hamburg ekki fjárhagslegan grundvöll félagsins missir félagið keppnisleyfi sitt. Það væri mikið áfall fyrir þýskan handbolta að missa Hamburg úr deildinni.

Þetta er ansi mikið fall eftir að hafa unnið Meistaradeildina fyrir ári síðan. Þetta minnir líka óneitanlega á þegar danska liðið AG varð gjaldþrota.

Rudolph er staddur á Mallorca þessa dagana og hafa forráðamenn þýska handboltasambandsins og leikmenn frá liðinu verið í heimsókn í þeirri von að fá hann til þess að koma aftur og sjá til þess að félagið fari ekki á hausinn.

Milljónamæringurinn hefur undanfarna mánuði kvartað undan lélegum stuðningi frá borgaryfirvöldum í Hamburg. Hann virðist síðan hafa fengið nóg og gengið út.

Áætlað er að Rudolph sé búinn að dæla tæpum fjórum milljörðum króna í félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×