Körfubolti

NBA: OKC vann upp sjö stiga forskot á síðustu 50 sekúndunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell westbrook fagnar með Kevin Durant í nótt.
Russell westbrook fagnar með Kevin Durant í nótt. Vísir/AP
Oklahoma City Thunder náði dramatískri endurkomu á síðustu mínútunni þegar liðið komst í 3-2 á móti Los Angeles Clippers í nótt í einvígi liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Indiana Pacers liðinu tókst ekki að klára einvígið á móti Washington Wizards.

Russell Westbrook skoraði 38 stig og hitti úr þremur vítaskotum 6,4 sekúndum fyrir leikslok þegar Oklahoma City Thunder vann 105-104 sigur á Los Angeles Clippers á heimavelli í nótt og komst í 3-2 í þessu frábæra einvígi. Westbrook var einnig með 6 stoðsendingar, 5 fráköst og 3 stolna bolta.

Los Angeles Clippers virtist vera með leikinn í sínum höndum, 104-97 yfir þegar 50 sekúndur voru eftir. Kevin Durant skoraði þá fimm stig úr tveimur skotum eftir stoðsendingar frá Russell Westbrook sem síðan tryggði liði sínu sigurinn með þremur vítum eftir að Chris Paul var dæmdur brotlegur.

Kevin Durant skoraði 10 af 27 stigum sínum á síðustu 3 mínútum og 23 sekúndum leiksins en enginn annar hjá OKC heldur en stórstjörnurnar tvær komust yfir tíu stigin í leiknum.

Blake Griffin var með 24 stig og 17 fráköst fyrir Clippers-liðið, Jamal Crawford skoraði 19 stig og Chris Paul var með 17 stig og 14 stoðsendingar.

Marcin Gortat var með 31 stig og 16 fráköst þegar Washington Wizards vann 102-79 útisigur á Indiana Pacers. Töframennirnir tóku 39 fleiri fráköst en heimamenn og staðan er nú 3-2 fyrir Indiana. John Wall var með 27 stig fyrir Washington en David West skoraði 17 stig fyrir Indiana.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×