Körfubolti

Barkley segir konurnar í San Antonio vera feitar

Strigakjafturinn Barkley gefur ekkert eftir.
Strigakjafturinn Barkley gefur ekkert eftir. vísir/getty
Charles Barkley, fyrrum körfuboltagoðsögn og nú sjónvarpsmaður, er búinn að gera allt vitlaust í San Antonio með ummælum sem hann lét falla í sjónvarpinu á dögunum.

Hann hefur lengi átt í útistöðum við stuðningsmenn San Antonio Spurs og mun líklega eiga í útistöðum við þá næstu árin miðað við nýjustu ummælin.

"Það eru alvöru stórar konur þarna í borginni. Borgin er gullnáma fyrir einkaþjálfara enda nóg af væntanlegum viðskiptavinum. Victoria er algjört leyndarmál í borginni enda komast konurnar ekki í Victoria's Secret nærföt þarna," sagði Barkley óhræddur við að æsa menn upp eins og áður.

Eins og búast mátti við reiddust margir út af þessum ummælum. Stjörnur í borginni og meira að segja kærasta Tim Duncan hafa látið hann heyra það út af þessum ummælum.

Barkley hefur þó engan áhuga á því að biðjast afsökunar.

"Það vita allir sem vilja að ég var bara að grínast. Ef ykkur finnst ég ekki vera fyndinn þá megið þið bara slökkva á sjónvarpinu. Ég er ekkert að fara að breyta mér," sagði Barkley klettharður.

Hann var einmitt í San Antonio í gær að fjalla um leik Spurs og Oklahoma. Áhorfendur létu hann heldur betur heyra það.

"Ég er ekki viss um að allir í sjónvarpinu heyri að fólkið er að öskra á mig að ég sé ömurlegur. Ég vil að þau viti að mér finnst þau líka ömurleg."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×