Körfubolti

Heat í úrslit fjórða árið í röð

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Svona er kóngurinn ekki stoppaður
Svona er kóngurinn ekki stoppaður vísir/ap
Miami Heat tryggði sér í nótt sæti í úrslitum NBA körfuboltans eftir öruggan og léttan sigur á Indiana Pacers 117-92 á heimavelli.

Leikurinn í nótt var varla spennandi nema kannski fyrstu mínúturnar. Yfirburðir Heat voru mjög miklir og mótspyrna gestanna lítil sem engin.

Heat var ellefu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og í hálfleik munaði 26 stigum, 60-34. Heat bætti í í þriðja leikhluta og því var aðeins formsatriði að klára leikinn.

Miami Heat er því komið í úrslit fjórða árið í röð og er fyrsta liðið til að afreka það síðan Boston Celtics fór fjögur ár í röð í úrslit á árunum 1984 til 1987.

LeBron James skoraði 25 stig fyrir Heat líkt og Chris Bosh. James varð í nótt aðeins annar leikmaðurinn til að vinna 100 leiki í úrslitakeppninni fyrir 30 ára afmælisdaginn en hinn var Magic Johnson.

Rashard Lewis  og Dwyane Wade skoruðu 13 stig hvor og Chris Andersen 9 af bekknum auk þess að taka 10 fráköst á aðeins 13 mínútum.

Paul George skoraði 29 stig fyrir Indiana og David West 16.

Myndband með gangi leiksins má finna hér að neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×