Handbolti

Naumur sigur Svía

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fredrik Peterson skoraði sigurmark Svía gegn Rúmenum í dag.
Fredrik Peterson skoraði sigurmark Svía gegn Rúmenum í dag. Vísir/AFP
Fredrik Peterson reyndist hetja Svía þegar hann tryggði liðinu eins marks útisigur, 24-25, á Rúmeníu í fyrri leik liðanna um laust sæti á HM 2015 í Katar. Petersen, sem leikur undir stjórn Dags Sigurðssonar hjá Füchse Berlin, skoraði sigurmarkið út vítakasti eftir að leiktíminn var runninn út.

Leikurinn var afar jafn, en Svíar voru þó jafnan á undan að skora í fyrri hálfleik. Rúmenar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörk hálfleiksins og leiddu að honum loknum með einu marki, 9-8.

Rúmenar komust fljótlega þremur mörkum yfir, 14-11, í seinni hálfleik en Svíar gáfust ekki upp. Þeir jöfnuðu metin í 16-16 og liðin skiptust svo á forystunni það sem eftir lifði leiks.

Marius Sadoveac jafnaði leikinn í 24-24 þegar hálf mínúta var eftir. Svíar tóku þá leikhlé og tókst að því loknu að fiska vítakastið sem Petersen skoraði sigurmarkið úr.

Petersen var markahæstur í liði Svía með sex mörk, en næstir komu Jim Gottfridsson og Nicklas Ekberg með fimm mörk hvor. Valentin Ghionea skoraði mest fyrir Rúmeníu, eða átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×