Hannes Þór Halldórsson, aðalmarkvörður landsliðsins, fær að hvíla sig í kvöld, en Lars og Heimir gáfu út byrjunarliðið seint í gærkvöldi og þar kom fram að GunnleifurGunnleifsson byrjar í markinu.
Hannes varði mark Íslands í jafnteflisleiknum gegn Austurríki á föstudaginn og stóð sig vel eins og svo oft áður. Þessi þrítugi Leiknismaður er að spila í atvinnumennskunni í fyrsta skipti í ár en hann gekk í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Sandnes Ulf fyrr á árinu.
„Það er búið að vera mjög gaman. Þetta er krefjandi. Leikirnir eru stærri og fótboltinn aðeins öðruvísi, en ekki mikið samt,“ sagði Hannes við Vísi á æfingu landsliðsins í Þorlákshöfn í gær.

Úlfarnir frá Sandnes eru sem stendur í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar eftir ellefu umferðir með sjö stig og hafa aðeins unnið einn leik. Það endurspeglar þó ekki frammistöðu Hannesar sem er lofsunginn eftir nánast hvern einasta leik í norskum miðlum. Hann er sagður einfaldlega halda liðinu á floti, eins langt og það nær.
„Þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt en gengi liðsins er auðvitað ekkert sérstakt. Það dregur mann aðeins niður, en fyrir utan það er ég mjög ánægður með þetta,“ sagði Hannes sem er fullmeðvitaður um eigin ágæti á tímabilinu.
„Ég verð að viðurkenna það, að ég er búinn að vera í fínu formi og er ánægður með mína frammistöðu. Það hefur samt ekki skilað neinum stigum ennþá. Bestu leikirnir mínir hafa oftast verið í tapleikjum,“ sagði hann og hló við.
„Við þurfum að fara að rífa okkur í gang. Það er margt gott í þessu liði og ég er að stóla á að við förum vakna til lífsins. Það verður líka að gerast fyrr eða síðar. Það fer hver að verða síðastur að rífa sig upp úr þessum pakka á botninum.“
Þrátt fyrir að hafa farið seinna út en flestir, ef ekki allir, atvinnumenn Íslands í dag segir Hannes alltaf hægt að læra eitthvað nýtt og taka framförum. Hann gerir líka þá kröfu á sjálfan sig að bæta sig með hverjum degi.
„Það er mikið af nýjum áskorunum sem mæta manni þarna úti og nýjar dyr sem opnast. Maður er náttúrlega kominn með nýjan markmannsþjálfara og það koma alltaf fram nýjar hugmyndir með nýjum mönnum. Það gerir það að verkum að maður er alltaf að bæta sig. Það er líka mín stefna. Maður verður að vera að bæta sig fram á síðasta dag,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.