Handbolti

Patrekur og félagar tryggðu sér farseðilinn til Katar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vytautas Ziura og félagar í austurríska landsliðinu verða með á HM í Katar á næsta ári.
Vytautas Ziura og félagar í austurríska landsliðinu verða með á HM í Katar á næsta ári. Vísir/AFP
Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu í handbolta verða á meðal þátttökuþjóða á HM í Katar á næsta ári. Þetta varð ljóst eftir jafntefli Austurríkis og Noregs í seinni leik liðanna um sæti á HM í dag.

Austurríki hafði frumkvæðið allt frá byrjun leiks. Gestirnir komust í 4-7 eftir tíu mínútna leik, en þá kom fínn kafli hjá Norðmönnum sem skoruðu fjögur mörk gegn einu og náðu að jafna leikinn í 8-8.

Austurríkismenn sigu þá aftur fram úr, náðu mest fimm marka forystu og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 13-17.

Það sama var uppi á teningnum framan af seinni hálfleik, en um miðjan hálfleikinn tóku Norðmenn við sér. Þeir breyttu stöðunni úr 22-24 í 25-24 og við tóku spennandi lokamínútur.

Gestirnir jöfnuðu í 25-25 og aftur í 26-26, en þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum kom Espen Lie Hansen Noregi yfir, 27-26.

Viktor Szilagyi jafnaði leikinn, Harald Reinkind kom Norðmönnum aftur yfir en Vytautas Ziura gerði út um vonir Norðmanna þegar hann jafnaði leikinn í 28-28 sem urðu lokatölur leiksins.

Szilagyi og Janko Bozovic skoruðu sex mörk hvor fyrir Austurríki, en Ziura kom næstur með fimm.

Hansen var markahæstur í liði Norðmanna með átta mörk, en næstir komu Magnus Joendal með fimm og Bjarte Myrhol með fjögur.

Austurríki vann fyrri leikinn 28-26 og viðureignina samanlagt 56-54.




Tengdar fréttir

Austurríki hafði betur gegn Noregi | Stórsigur Serba

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu unnu tveggja marka heimasigur, 28-26, á Noregi í fyrri leik liðanna um sæti á HM í Katar á næsta ári. Norðmenn leiddu með einu marki í hálfleik, 15-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×