Handbolti

Guðjón Valur: Miklu stærra en ég átti von á

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur með Barcelona-treyjuna.
Guðjón Valur með Barcelona-treyjuna. mynd/barcelona.es
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, var í viðtali Í bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi viðtökurnar sem hann fékk í Barcelona þegar hann var kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður félagsins.

„Þetta var svolítið skrítið allt saman. Við vorum mætt þarna klukkutíma áður en allt fór fram. Ég hitti þjálfarann og við fórum yfir sumarið og undirbúnginn,“ sagði Guðjón Valur.

„Svo þegar allt fer í gang þá eru miklu fleiri blaðamenn en maður er vanur og það voru spurðar spurningar á blaðamannafundinum sem maður er óvanur.“

„Mönnum þykir vænt um liðið sitt þarna og félagið og það er ekki hverjum sem er hleypt í þessa treyju. Þetta var miklu stærra, meira og merkilegra en ég átti nokkurntíma von á.“

Aðspurður hvort hann væri að semja við stærsta félagið á sínum ferli sagði Guðjón Valur Barcelona í heildina vera það stærsta en Kiel er meira handboltafélag.

„Kiel er stærri handboltaklúbbur myndi ég segja. Það eru 10.000 manns á hverjum leik og í þeim bæ snýst allt um handbolta. Fótboltaliðið er í þriðju deild og handboltinn er flaggskip borgarinnar Kiel,“ sagði Guðjón Valur.

„Í Barcelona lifa aðrar íþróttir á fótboltanum og hann er það sem öllu máli skiptir. En þeir eru það stoltir að þeir halda úti bestu liðunum í handbolta, körfubolta, innibolta og innihokkí einhverskonar. Félagið sem slíkt er það stærsta sem ég hef verið í en handboltalega séð er Kiel það stærsta sem ég hef verið í.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×