Golf

Var líklega samskiptavandamál

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Þór Einarsson.
Kristján Þór Einarsson. Vísir/Daníel
Guðjón Karl Þórisson, formaður Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ, segir að líklega hafi samskiptaleysi verið um að kenna að Kristján Þór Einarsson var ekki valinn í landsliðið í golfi á dögunum.

Eins og fjallað hefur verið um var Kristján Þór afar gagnrýninn á Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfara, fyrir að velja sig ekki í landsliðið fyrir EM í Finnlandi.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, tjáði sig svo um málið í fjölmiðlum og sagði það ekki samræmast afreksstefnu sambandsins að velja Kristján Þór í liðið.

Kristján Þór var í öðru sæti stigalista Eimskipsmótaraðarinnar þegar landsliðið var valið og kom sér svo í efsta sætið með því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni um helgina.

„Viðtalið [Við Hauk Örn] kom okkur í opna skjöldu því við rekum öflugt afreksstarf í Kili sem byggir að miklu leyti á afreksstefnu GSÍ,“ sagði Guðjón Karl.

„Við vildum vita hvort að við værum að gera eitthvað rangt því okkur fannst skrýtið að okkar sterkasti kylfingur samræmdist ekki afreksstefnunni.“

„Við vildum því fá svör við því og funduðum því með golfsambandinu. Mér sýnst fyrst og fremst að þetta hafi verið samskiptavandamál - að menn hafi einfaldlega ekki talað nógu vel saman.“

Hann segist hafa fengið fullvissu um að afreksstefna Kjalar samræmist afreksstefnu GSÍ og er þess fullviss að Kristján Þór eigi afturkvæmt í landsliðið. „Ég er viss um það. Við virðum ákvörðun landsliðsþjálfarans þó svo að við séum ekki sammála henni. En við vonum að menn ræði betur saman og að Kristján muni spila aftur í landsliðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×