Rory McIlroy þaggaði niður í öllum gagnrýnisröddum með spilamennsku sinni á öðru degi Opna breska Meistaramótsins í golfi í dag.
Rory lék annan daginn í röð á sex höggum undir pari og hafði hann fimm högga forystu á næsta mann, Dustin Johnson þegar hann lauk leik.
Mikið var rætt um óstöðugleika Rory fyrir daginn en hann hefur á þessu tímabili ítrekað leikið vel á fyrsta degi en spilamennskan gjörsamlega hrunið á degi tvö.
Það voru eflaust einhverjar gagnrýnisraddir sem heyrðust þegar Rory fékk skolla á fyrstu holu en það virtist vera það sem Rory þurfti og spilaði hann nánast óaðfinnanlegt golf það sem eftir var.
Alls komu þrír fuglar á fyrri níu holunum og fjórir aðrir fuglar á seinni níu, þar af þrír fuglar á síðustu fjórum holunum og hefur Rory gott forskot fyrir seinustu tvo keppnisdagana.
