Handbolti

Þýskir handboltaáhugamenn vilja ekki að Alfreð taki við landsliðinu

Þjóðverjar vilja sjá heimamann stýra liðinu en ekki Alfreð Gíslason miðað við könnun Sport1.
Þjóðverjar vilja sjá heimamann stýra liðinu en ekki Alfreð Gíslason miðað við könnun Sport1. vísir/getty
Eins og fram hefur komið á Vísi þá vill þýska handknattleikssambandið helst fá Alfreð Gíslason sem næsta landsliðsþjálfara Þýskalands.

Samkvæmt heimildum Vísis er hann efstur á óskalista sambandsins. Annar er forveri hans hjá Kiel, Noka Serdarusic, og Dagur Sigurðsson er þriðji valkostur.

Heiner Brand, fyrrum þjálfari þýska landsliðsins, er alls ekki ánægður með að þýska sambandið ætli sér að ráða útlending í starfið og landar hans eru honum sammála þar.

Á þýsku handboltasíðunni Sport1 er könnun meðal lesenda hvern þeir vilji fá sem næsta landsliðsþjálfara.

Helmingur þeirra sem hefur kosið vill að Stefan Kretzschmar, fyrrum hornamaður landsliðsins, taki við landsliðinu. Um 18 prósent vilja sjá Martin Schwalb, fyrrum þjálfara Hamburg, í starfinu en það kemur ekki til greina þar sem hann er að jafna sig eftir hjartaáfall.

Um 10 prósent vilja einhvern annan og 7 prósent vilja sjá Serdarusic taka við liðinu.

5 prósent hafa gefið Degi sitt atkvæði en Alfreð situr á botninum í könnuninni með rúm 4 prósent. Vilji þýska sambandsins og þýskra handboltaáhugamanna fer því ekki saman.


Tengdar fréttir

Þjóðverjar vilja ráða Alfreð

Þýska handknattleikssambandið leitar að nýjum þjálfara en liðið komst ekki á heimsmeistaramótið í Katar. Í gær var Martin Heuberger rekinn sem landsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×