Ísland og Belgía mætast í vináttulandsleik í knattspyrnu á Roi Baudouin-vellinum í Brussel 12. nóvember, en þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.
Belgíska landsliðið er eitt það sterkasta og mest spennandi í heimi, en með því spila fjölmargir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni.
Belgar komust í átta liða úrslit á HM í Brasilíu, en féllu úr leik með tapi gegn Argentínu. Gonzalo Higuaín skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.
Ísland og Belgía hafa mæst átta sinnum og hafa Belgar haft sigur í öll skiptin. Síðast mættust liðin í undankeppni HM árið 1977 og þá unnu Belgar stórsigur, 4-0.
Belgar eru í 5. sæti á heimslistanum, en leikurinn verður liður í undirbúningi liðsins gegn Wales í undankeppni EM 2016 sem fram fer 16. nóvember.
Þá verður leikurinn ennfremur undanfari leiks Íslands og Tékklands í undankeppni EM sem fram fer í Tékklandi 16. nóvember.

