Theódór Elmar Bjarnason og félagar hans í Randers tryggðu sér 1-0 sigur á Vestsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld með því að skora eina mark leiksins á lokamínútunni.
Theódór Elmar var í byrjunarliðinu en var tekinn af velli á 75. mínútu. Ögmundur Kristinsson var varamarkvörður Randers í leiknum.
Varamaðurinn Mikael Ishak skoraði sigurmarkið á 90. mínútu en hann kom inná í hálfleik. Randers er að byrja tímabilið vel en þetta var þriðji sigur liðsins í fyrstu fjórum umferðunum.
Sigurinn var sanngjarn enda var Randers-liðið mun meira með boltann og átti líka miklu fleiri skot að marki (12-2) samkvæmt tölfræði Tipsbladet.

