Fótbolti

Celtic kemst bakdyramegin aftur inn í Meistaradeildina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Þrátt fyrir að hafa tapað 1-6 í einvígi sínu gegn Legia Warsaw staðfesti UEFA í dag að Celtic hefði komist bakdyramegin inn í fjórðu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar eftir að í ljós kom að Legia Warsaw tefldi fram ólöglegum leikmanni í leik liðanna.

Celtic sló KR út nokkuð sannfærandi í annarri umferð en lenti í töluverðum vandræðum með pólsku meistarana í þriðju umferð. Legia Warsaw vann fyrri leik liðanna sannfærandi 4-1 á heimavelli og fylgdi því eftir með 2-0 sigri í Glasgow á miðvikudaginn.

Það voru hinsvegar efasemdir um lögmæti Bartosz Bereszynski, leikmanns Legia Warsaw sem spilaði síðustu tvær mínútur seinni leiksins. Hann var dæmdur í þriggja leikja bann á síðasta tímabili eftir að hafa fengið rautt spjald í leik liðsins gegn Apollon Limassol.

Hefur UEFA staðfest að hann hafi verið ólöglegur í leik liðanna á miðvikudaginn og Celtic því dæmdur 3-0 sigur og kemst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Celtic kemst inn í Evrópukeppni bakdyramegin en fyrir nokkrum árum sló svissneska liðið Sion skosku meistarana út en í ljós kom að Sion tefldi fram ólöglegum leikmönnum eftir að hafa verið í félagsskiptabanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×