Rúnar Már Sigurjónsson, Jón Guðni Fjóluson og félagar þeirra í GIF Sundsvall unnu stórsigur á GAIS með fjórum mörkum gegn engu í sænsku 1. deildinni í fótbolta í dag.
Johan Eklund kom Sundsvall yfir á 8. mínútu og sex mínútum seinna bætti Kevin Walker við marki.
Pa Amat Dibba kom Sundsvall í 3-0 á 57. mínútu eftir sendingu frá Rúnari og Eklund skoraði svo sitt annað mark og fjórða mark Sundsvall á 79. mínútu.
Jón Guðni og Rúnar léku allan leikinn fyrir Sundsvall sem situr í 3. sæti deildarinnar með 34 stig eftir 18 leiki.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson kom inn á sem varamaður í liði GAIS á 61. mínútu. GAIS situr í 15. og næstneðsta sæti deildarinnar.
