Handbolti

Tekur Dagur við Þjóðverjum?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur Sigurðsson þykir líklegur til að taka við þýska landsliðinu.
Dagur Sigurðsson þykir líklegur til að taka við þýska landsliðinu. Vísir/Getty
Þýska tímaritið Der Spiegel greinir frá því að Dagur Sigurðsson, þjálfari Füsche Berlin, verði næsti landsliðsþjálfari Þýskalands.

Hann tekur við starfinu af Martin Heuberger sem var látinn taka pokann sinn þegar ljóst var að Þjóðverja næðu ekki að tryggja sig inn á HM í Katar á næsta ári, en sem kunnugt er fengu Þjóðverjar síðan farseðilinn inn á heimsmeistaramótið í boði Alþjóðahandknattleikssambandsins á kostnað Ástralíu.

Fréttastofan hefur í dag ítrekað reynt að ná tali af umboðsmanni Dags, Wolfgang Gütschow, en án árangurs.

Hvorki Dagur né umboðsmaður hans vildu staðfesta fréttina við Der Spiegel, en ef satt reynist verður Dagur fyrsti útlendingurinn sem tekur við þýska landsliðinu.

Þetta stríðir gegn þeirri hugmyndafræði sem Þjóðverjar hafa unnið eftir á síðustu árum, en fyrrum landsliðsþjálfari Þýskalands, Heiner Brand, sem gerði liðið að heimsmeisturum 2007 og Evrópumeisturum 2004, hefur barist gegn því með kjafti og klóm að erlendur þjálfari yrði ráðinn til starfans.

Brand er goðsögn í Þýskalandi, en hann leiddi Þjóðverja til heimsmeistaratitils í Bröndby-höllinni í Kaupmannahöfn árið 1978 þegar Vestur-Þjóðverjar lögðu Sovétmenn að velli.

Það virðist því vera að gamla handboltaelítan hafi tapað baráttunni, en framkvæmdarstjóri Füsche Berlin, Bob Hanning, sem einnig er varaformaður þýska handknattleikssambandsins, er maðurinn leitt hefur leitina að nýjum landsliðsþjálfara.

Meira um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×