Handbolti

Duvnjak: Alfreð ræður hvar ég spila

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Domago Duvnjak styrkir meistaralið Kiel gríðarlega.
Domago Duvnjak styrkir meistaralið Kiel gríðarlega. vísir/getty
Króatinn Domagoj Duvnjak, sem af flestum er talinn besti handboltamaður heims, gekk í raðir Kiel í sumar frá Hamburg, en það er ein af ástæðum þess að lærisveinum AlfreðsGíslasonar er spáð mikilli velgengni á tímabilinu.

Kiel er nú með nokkra af bestu leikmönnum heims í útilínu sinni, leikmenn á borð við Tékkann FilipJicha, Serbann MarkoVujin og auðvitað AronPálmarsson.

„Ég hef aðlagast nýju liði vel, engin spurning, en vegna mikil álags í undirbúningi okkar hef ég ekki séð mikið af borginni Kiel. Aftur á móti erum við stutt frá Hamborg og þar hef ég spilað margsinnis,“ segir Duvnjak í viðtali við heimasíðu Meistaradeildarinnar.

Kiel vann sinn fyrsta titil á dögunum þegar liðið lagði Dag Sigurðsson og lærisveina hans í Füchse Berlín í árlegri viðureign Þýskalandsmeistaranna gegn bikarmeisturunum.

„Það var gaman að vinna Stórbikarinn. Það sáu samt allir að við eigum mikið verk eftir óunnið til að koma okkur almennilegt form og standa undir væntingum. Ég trúi samt að við munum eiga gæfuríkt tímabil,“ segir Króatinn, en Kiel tapaði svo fyrsta leik tímabilsins afar óvænt gegn Lemgo.

Aðspurður hvort hlutverk hans verði öðruvísi í liði Kiel þar sem það er svo stútfullt af heimsklassa leikmönnum segir Duvnjak:

„Fyrst og fremst líður mér bara vel í þessu liði. Í öðru lagi þá gerir enginn einn maður neitt. Auðvitað líður okkur eins og við eigum að vinna allar keppnir, en það þarf að mæta með réttu hugarfari til leiks. Við gerðum of mörg mistök á undirbúningstímabilinu þannig leikur liðsins er ekki alveg í jafnvægi.“

Duvnjak getur bæði spilað sem leikstjórnandi og vinstri skytta, en það sama má segja um Jicha og Aron Pálmarsson. Aron hefur þó nær eingöngu spilað sem leikstjórnandi.

Aðspurður hvort hann vilji frekar spila hjá Kiel segir Domagoj Duvnjak: „Þú verður að spyrja þjálfarann okkar, Alfreð Gíslason. Hann ræður. Mér er alveg sama hvar ég spila bara á meðan okkur gengur vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×