Handbolti

Alfreð: Við erum að spila mjög illa

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. vísir/getty
Þýskalandsmeistarar Kiel hafa byrjað tímabilið mjög illa og þjálfarinn, Alfreð Gíslason, er eðlilega ekki ánægður með leik liðsins.

Kiel byrjaði á því að tapa gegn Lemgo í fyrstu umferð en vann síðan sannfærandi sigur á Evrópumeisturum Flensburg. Svo marði Kiel sigur á lemstruðu liði Hamburg og í gær tapaði liðið á neyðarlegan hátt, 22-21, gegn smáliði Balingen.

"Við erum að spila mjög illa," sagði Alfreð svekktur í leikslok.

Sóknarleikurinn er að svíkja liðið en það hefur aðeins skorað 97 mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum en í fyrra skoraði liðið 137 mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Aðeins gegn Flensburg braut Kiel 30 marka múrinn.

"Sóknarleikurinn hefur verið mjög lélegur í öllum þessum leikjum. Við erum með nýja menn í sókninni og þeir þurfa tíma til þess að aðlagast."

Nýju mennirnir Domagoj Duvnjak og Joan Canellas hafa ekkert getað í upphafi leiktíðar og örvhenta skyttan Steffen Weinhold meiddist gegn Hamburg.

Engu að síður er nóg af frábærum leikmönnum í þessu liði Kiel og hreinlega með ólíkindum hversu slakur leikur liðsins hefur verið í upphafi leiktíðar.


Tengdar fréttir

Kiel tapaði óvænt gegn Balingen | Aron sá rautt

Þýsku meistararnir í Kiel töpuðu nokkuð óvænt fyrir Balingen á útivelli í kvöld 21-22. Aron Pálmarsson fékk rautt spjald í leiknum þegar tuttugur mínútur voru til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×