Fótbolti

Arnór Ingvi skoraði í dýrmætum sigri Norrköping

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Ingvi Traustason átti góðan leik í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason átti góðan leik í kvöld. mynd/ifknorrköping
Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason skoraði eitt mark fyrir Norrköping sem lagði Brommapojkarna, 3-1, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Staðan var 2-1 þegar Arnór Ingvi innsiglaði sigurinn á 73. mínútu, en þetta er þriðja markið sem hann skorar í deildinni.

Bakvörðurinn Kristinn Jónsson var ekki í leikmannahópi Brommapojkarna sem vermir botnsæti deildarinnar með níu stig, en aðeins er tímaspursmál hvenær það fellur niður í B-deildina.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Norrköping sem er sjálft í mikilli fallbaráttu, en það er í 13. sæti af 16 liðum með 24 stig eftir sigurinn í kvöld komst upp úr fallsæti.

Helsingborg ýtti sér einnig frá fallsvæðinu með sigri á AIK á heimavelli í kvöld, 3-1. Helsingborg er nú með 29 stig, sex stigum frá öruggu sæti þegar sjö umferðir eru eftir.

Guðlaugur Victor Pálsson heldur áfram að spila vel fyrir Helsingborg, en hann lagði upp annað mark leiksins fyrir David Accam á 42. mínútu.

Arnór Smárason kom enn og aftur inn á sem varamaður, en hann hefur fengið fá tækifæri í byrjunarliði Helsingborg á tímabilinu. Hann spilaði síðasta korterið í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×