Fótbolti

Viðar með þrennu fyrir Vålerenga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar Örn hefur farið hamförum á tímabilinu.
Viðar Örn hefur farið hamförum á tímabilinu. Heimasíða Vålerenga
Viðar Örn Kjartansson heldur áfram að fara á kostum í norsku úrvalsdeildinni, en Selfyssingurinn skoraði þrennu þegar Vålerenga vann 4-1 sigur á Haugesund á heimavelli í dag.

Viðar skoraði 32. og 34. mínútu og fullkomnaði svo þrennuna á þeirri 72. Hann er nú kominn með 24 mörk í 22 deildarleikjum og er langmarkahæstur í deildinni.

Annar Selfyssingur, Guðmundur Þórarinsson, var einnig á skotskónum þegar Sarpsborg 08 vann 0-2 útisigur á botnliði Sandnes Ulf.

Guðmundur skoraði fyrra markið á 26. mínútu og tólf mínútum síðar bætti Kristoffer Tokstad öðru marki við. Guðmundur fór af velli á 53. mínútu.

Hannes Þór Halldórsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson og Hannes Sigurðsson voru í byrjunarliði Sandnes og léku allan leikinn.

Matthías Vilhjálmsson kom af varamannabekknum og skoraði annað marka Start í 2-3 tapi gegn Stabæk.

Fredrik Brustad kom Stabæk yfir á 48. mínútu, en Matthías jafnaði metin á 67. mínútu, sex mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Andrew Jacobson náði forystunni fyrir Stabæk á nýjan leik á 72. mínútu og sex mínútum síðar bætti Franck Boli við marki. Ernest Asante klóraði í bakkann með marki í uppbótartíma. Guðmundur Kristjánsson lék allan leikinn fyrir Start sem situr í 12. sæti.

Þá skildu Sogndal og Álasund jöfn með einu marki gegn einu. Hjörtur Logi Valgarðsson lék allan leikinn fyrir Sogndal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×