Handbolti

Lærisveinar Alfreðs og Dags unnu sína leiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron skoraði fjögur mörk gegn Melsungen í dag.
Aron skoraði fjögur mörk gegn Melsungen í dag. Vísir/Getty
Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk þegar Kiel vann öruggan sigur á Melsungen á heimavelli. Lokatölur urðu 32-23, Kiel í vil, en staðan í hálfleik var 17-10.

Nicklas Ekberg átti stórleik fyrir Kiel og skoraði 11 mörk. Aron og Joan Canellas skoruðu fjögur mörk hvor. Michael Allendorf var markahæstur í liði Melsungen með sjö mörk.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar unnu sjö marka sigur á Balingen á heimavelli, 30-23. Balingen var einu marki yfir í hálfleik, en dæmið snerist algjörlega við í seinni hálfleik sem Füsche vann 18-10.

Petar Nenadic skoraði mest í liði Füsche, eða sjö mörk. Konstantin Igropulo, Fredrik Petersen og Paul Drux komu næstir með fimm mörk hver. Frakkinn Oliver Nyokas skoraði sex mörk fyrir Balingen.

Þá vann Minden sjö marka sigur á Friesenheim, 33-26, á heimavelli. Aljoscha Schmidt skoraði sjö mörk fyrir Minden, en Philipp Grimm og Stephan Just skoruðu sex mörk hvor fyrir Friesenheim.

Í 1. deildinni vann Eisenach stórsigur á Hildesheim með 15 mörkum, 14-29. Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk fyrir Eisenach og Hannes Jón Jónsson eitt.

Í sömu deild vann Bittenfeld einnig 15 marka sigur á Íslendingaliðinu Emsdetten, 38-23. Anton Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Emsdetten og Oddur Gretarsson tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×